Út er komið nýtt verðmat greiningardeildar Íslandsbanka á Marel. Niðurstaða verðmatsins er 12,3 ma.kr. sem jafngildir verðmatsgenginu 52,7. Helstu ástæður hækkunar á verðmati Marel eru lækkun ávöxtunarkröfu til eigin fjár auk þess sem við höfum hækkað áætluð framlegðarhlutföll til frambúðar. Uppgjör Marel síðustu fjórðunga hafa sýnt að mikill bati hefur átt sér stað í rekstrinum segja Íslandsbankamenn.

"Þar sem rekstrarbatinn hefur verið frekar skjótur er eðlilegt að spurt sé hvort að leiða megi út frá bættri afkomu að hún sé varanleg og hafi með raunverulega hagræðingu að gera en endurspegli ekki tímabundna uppsveiflu sem geti gengið til baka. Við teljum að bætt stjórnun og áhersla á arðsemi í stað vaxtar á undanförnum fjórðungum skili varanlega bættri framlegð," segir í greiningu Íslandsbanka.