Íslandsbanki hefur ákveðið að bjóða viðskiptavinum sínum upp á vaxtagreiðsluþak óverðtryggðra húsnæðislána. Viðskiptavinir geta valið þakið sjálfir svo fremi sem það sé yfir lágmarki sem ákveðið er af bankanum. Bankinn hefur ákveðið að þakið verði 7,5% ársvextir við núverandi aðstæður.

Umrætt vaxtagreiðsluþak hefur það í för með sér að þeir vextir sem eru umfram þakið, þ.e. umfram 7,5%, leggjast við höfuðstól lánsins og dreifast þar með yfir lánstímann. Þetta er ekki ósvipað fyrirkomulagi sem íslenskir lántakendur þekkja vel frá fyrri tíð. Verðtryggingin virkar á svipaðan hátt, þ.e. verðbætur vegna verðbólgu leggjast við höfuðstól lána og dreifast yfir lánstímann.

Samkvæmt tilkynningu frá bankanum á þetta að veita viðskiptavinum skjól í umhverfi hækkandi vaxta. Enn fremur kemur fram að markmiðið sé að bjóða viðskiptavinum möguleika á að minnka óvissu um greiðslubyrði óverðtryggðra húsnæðislána með breytilegum vöxtum, við hækkandi vexti á markaði.

„Um 90% viðskiptavina okkar hafa valið óverðtryggð húsnæðislán síðustu misseri. Það er mikilvægt að veita þeim vernd fari vextir hækkandi. Við teljum að með tilkomu vaxtagreiðsluþaksins hafi viðskiptavinir okkar nú raunverulegt val milli verðtryggðra og óverðtryggðra húsnæðislána þar sem óvissa um framtíðar greiðslubyrði hefur verið takmörkuð. “ segir Una Steinsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptabankasvið Íslandsbanka meðal annars í tilkynningu frá bankanum