Íslandsbanki hefur flutt útibú sitt í London á nýjan stað og af því tilefni heldur bankinn móttöku í dag, fimmtudaginn 3. nóvember. Útibúið er staðsett í City þar sem Nat West var áður til húsa á bak við Bank of England. Útibú Íslandsbanka í London er hluti af Alþjóða- og fjárfestingasviði Íslandsbanka og er meginstarfsvið þess á sviði Fyrirtækjaráðgjafar, Skuldsettrar fjármögnunar og lánastarfsemi. Útibúið gegnir einnig mikilvægu hlutverki í fjármögnun bankans hvað varðar samskipti við fjárfesta segir í frétt bankans.

Steinunn Kristín Þórðardóttir, sem nýlega var ráðin sem framkvæmdastjóri útibúsins segir að meginverkefnið verði að styrkja starfsemi bankans í Bretlandi og auka þjónustu við viðskiptavini á þessum markaði. Fyrirtækjaráðgjöfin í London er skipuð reynslumiklum starfsmönnum sem búa yfir mikilli reynslu á matvælamarkaðnum, m.a. í sjávarútvegi. Um 15 starfsmenn starfa í London en skrifstofan er einnig til afnota fyrir annað starfsfólk bankans sem er í viðskiptaerindum í Bretlandi.