Íslandsbanki gaf í gær út álit á efni þeirra tveggja frumvarpa sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur lagt fram um breytingar á stjórnkerfi fiskveiða annars vegar og á veiðigjaldi hins vegar.

Í álitinu kemur fram að fyrirhugaðar breytingar muni hafa töluverð áhrif á starfsemi viðskiptabanka og þ.a.l. fjármögnunarleiðir sjávarútvegsfyrirtækja. Líklegt er talið að fjárfestingar í sjávarútvegi muni dragast saman nái frumvörpin fram að ganga. Erfitt verði fyrir sjávarútvegsfyrirtækin að byggja upp eigið fé á sama tíma og fjárflæði dragist saman. Þetta valdi því að erfiðara verði fyrir þau að fá ný lán og muni það hamla nýliðun þar sem nýir aðilar muni þurfa að leggja fram mikið eigið fé eða aðrar eignir til veðsetningar til að hefja rekstur. Þar sem fjárfestingargeta fyrirtækjanna minnki muni skipaflotinn eldast og framþróunin verða lítil sem engin. Með þessu sé verið að veikja sjávarútvegsfyrirtækin og getu þeirra til að standa við núverandi og væntanlega skuldbindingar gagnvart lánastofnunum.

Í álitinu segir jafnframt að útlán til sjávarútvegsfyrirtækja vegi misþungt í efnahagsreikningi stóru viðskiptabankanna þriggja. Sjávarútvegurinn er um 12% af útlánum Íslandsbanka, 23% hjá Landsbankanum og um 11% hjá arion banka (bæði til sjávarútvegs og landbúnaðar). Komið hefur fram hjá bönkunum að þessi útlánasöfn séu þeim mikilvægt og röskun á núverandi kerfi mun hafa verulega neikvæð áhrif á efnahag þeirra.