Samdráttur er ekki í kortunum á næstunni að mati greiningar Íslandsbanka, en bankinn telur að aðlögun eftir bakslagið 2019 muni taka tíma. Þetta kemur fram í nýrri þjóðhagsspá bankans , en þar spáir hann 1,4% hagvexti í ár, 2,3% árið 2021 og 2,4% árið 2022.

Gerir greiningardeildin ráð fyrir að útflutningur muni hægt og sigandi ná sér á strik á nýjan leik, vaxa um 0,4% í ár og 2,0% árið 2021. Jafnframt býst greining bankans við að áfram verði afgangur af utanríkisviðskiptum, það er 2,8% af vergri landsframleiðslu í ár en 2,5% árið 2021.

Í Þjóðhagsspánni er gert ráð fyrir að verðbólga verði hófleg á komandi misserum, það er 2,2% á þessu ári en 2,6% árið 2021. Loks er gert ráð fyrir stöðugum vexti kaupmáttar þrátt fyrir fremur hóflega hækkun launa, eða um 2,2% í ár en 2,1% árið 2021, en samhliða verði atvinnuleysi allnokkurt á komandi misserum, eða 4,4% í ár og 3,8% á árinu 2021.