Útlit er fyrir að 3 til 5 milljarða króna halli hafi verið á vöruskiptum við útlönd í september. Þetta kemur fram í Morgunkornum Íslandsbanka. Ef rétt reynist þá er um sjöunda mánuðinn í röð sem halli er á vöruskiptum. Samanlagður halli ársins mun þá nema um 31 milljarði króna en yfir sama tímabil í fyrra nam hann rúmum 11 milljörðum. Hallinn hefur því aukist til muna. Rekja má aukinn halla til hratt vaxandi innflutnings fjárfestinga- og neysluvara á sama tíma og útflutningsatvinnugreinar hafa átt erfitt uppdráttar.

Innflutningur í september nam 19 milljörðum króna samkvæmt bráðabirgðatölum frá fjármálaráðuneytinu og er sambærilegur við sama mánuð í fyrra. Útflutningur hefur sennilega verið á bilinu 14 til 16 milljarðar króna í september. Líklegt er að útflutningur sjávarafurða hafi verið u.þ.b. 8,5 milljarðar í september og er það talsvert minna en á sama tíma í fyrra. Samkvæmt tölum frá Hagstofu dróst aflaverðmæti saman um tæp 9% á föstu verði í september miðað við sama mánuð í fyrra auk þess sem sjávarafurðir hafa lækkað í verði. Þá hefur gengi krónunnar hækkað miðið við sama mánuð í fyrra sem kemur niður á verðmæti útfluttra vara í krónum talið. Hagstofan mun birta vöruskiptajöfnuð fyrir september næstkomandi fimmtudag.