Þrotabú Glitnis er með hlut sinn í Íslandsbanka í söluferli. Þetta kemur fram í tillögu um greiðslu forgangskrafna úr þrotabúinu sem send var kröfuhöfum Glitnis í gær. Glitnir á 95% hlut í Íslandsbanka sem nýverið sameinaðist Byr. Kemur þetta fram í Fréttablaðinu í dag.

Samkvæmt fréttinni segir í tillögunni að: „Ferli er í gangi vegna hugsanlegrar sölu hlutafjár Glitnis í Íslandsbanka. Ekki er vitað hvort Íslandsbanki verði seldur í íslenskum krónum eða í öðrum gjaldmiðlum eða hvort hann verði yfirleitt seldur". Svissneski bankinn UBS hefur aðstoðað Glitni í umræddu söluferli. Allmargir erlendir bankar hafa sýnt áhuga á að kaupa Íslandsbanka, þar á meðal kanadískir og norskir bankar.