Íslandspóstur ohf. (ÍSP) niðurgreiddi samkeppnisrekstur með tekjum frá einkaréttarrekstri. Stjórn ÍSP hefur sjálf áætlað að 282 milljónir króna á núverandi verðlagi hafi verið notaðar af tekjum einkaréttar á tímabilinu 2009 til 2011 til að greiða niður samkeppni á frjálsum markaði, sem hefur ekki með alþjónustukvöð fyrirtækisins að gera. Sé niðurgreiðsla á samkeppnisrekstri innan alþjónustukvaðar tekin með í reikninginn er um rúmar 825 milljónir að ræða. Þetta kemur fram í ákvörðunum Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) nr. 18/2013 og nr. 19/2014 og byggir á gögnum sem stjórn ÍSP lét PFS í té.

Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri ÍSP, segir þessa niðurgreiðslu hafa verið heimila og að Íslandspóstur hafi ætíð starfað innan settra laga. Hann segir jafnframt að umræddar upplýsingar sem komi fram í ákvörðunum PFS gefi ekki glögga mynd af niðurgreiðslum því þær byggi á ófullkominni matsaðferð við kostnaðargreiningu í rekstri félagsins. Ársreikningar félagsins, sem byggja á sömu matsaðferð, eru undirritaðir af stjórn ÍSP og Ríkisendurskoðanda.

Niðurgreiðsla snúist um orðalag

Í Viðskiptablaðinu þann 22. janúar síðastliðinn var Ingimundur Sigurpálsson spurður að því hvort félagið niðurgreiddi samkeppnisrekstur. Kvað hann svo ekki vera, enda væri það „brot á samkeppnislögum“. Inntur eftir skýringum á því hvers vegna hann hafi fullyrt þá að sú væri raunin, í ljósi upplýsinga um niðurgreiðslur sem stjórn ÍSP hafi sjálf lagt fram til PFS og ummæla forstjóra þess, segir hann að málið snúist um orðalag og hvaða skilningur sé lagður í orðin „niðurgreiðsla á samkeppnisrekstri“.

Ingimundur segir: „Samkvæmt reglugerðinni [reglugerð um bókhaldslega og fjárhagslega aðgreiningu í rekstri póstrekanda, innsk. blm.] um uppgjör þá erum við augljóslega að greiða hann niður samkvæmt uppgjörinu. En ef maður er almennt spurður hvort maður sé að greiða niður samkeppnisvöru er yfirleitt verið að spyrja hvort maður sé að gera það með ólögmætum hætti með tilliti til samkeppnislaga.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .