Íslandssjóðir hafa stofnað tvo nýja fjárfestingarsjóði sem fjárfesta að stærstum hluta í sértryggðum skuldabréfum.

Annar sjóðurinn mun fjárfesta í blöndu af verðtryggðum og óverðtryggðum skuldabréfum en hinn sjóðurinn fjárfestir einungis í verðtryggðum skuldabréfum.

Sértryggð skuldabréf eru gefin út af viðskiptabönkum og eru tryggð með undirliggjandi tryggingasafni til viðbótar við ábyrgð útgefanda. Skuldabréfin njóta þannig sérstakra tryggingaréttinda sem gerir þau áhættuminni fyrir fjárfesta.

Markaður með sértryggð skuldabréf hefur vaxið umtalsvert á síðustu misserum og eru útgáfur bankanna þriggja komnar yfir 100 milljarða króna.

„Við höfum mikla trú á uppbyggingu markaðs með sértryggð skuldabréf og teljum að nú sé góð tímasetning til að fara með auknum krafti inn á þann markað,“ segir Haraldur Örn Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandssjóða.

Íslandssjóðir hf. er sjóðastýringarfélag með yfir 100 milljarða króna í stýringu í skuldabréfasjóðum félagsins. Íslandssjóðir er dótturfélag Íslandsbanka.