Orkuvandinn í heiminum felst ekki í því að það sé ekki til nóg af orku í honum, heldur hinu, hvernig sé best og ódýrast að beisla orkuna og koma henni til þeirra sem hana vilja nota.

Íslendingar hafa þannig ofgnótt af hreinni, endurnýtanlegri og tiltölulega auðunninni orku rétt utan við bæjardyrnar, miklu meiri en dvergþjóðin hefur þörf fyrir, svo það liggur beint við að flytja hana út til orkuþyrsts heims. Það hefur raunar verið gert með óbeinum hætti um nokkurra áratuga skeið, því orkufrek stóriðja á Íslandi er vitaskuld lítið annað en orkuútflutningur, þó búið sé að binda orkuna málmi.

Þó að menn hafi látið sig dreyma um beinan orkuútflutning frá Íslandi allt frá 6. áratug liðinnar aldar, hefur hann ekki þótt raunhæfur til þessa. Nú kann sá tími hins vegar að vera runninn upp, sá tími að það sé ekki aðeins gerlegt, heldur bæði æskilegt og ábatasamt.

Tækniframfarir hafa leitt til þess að lagning raforkustrengs til Evrópu er viðráðanleg bæði í verki og verði, áhyggjur af loftslagsþróun hafa orðið til þess að hrein íslensk orka þykir ákjósanlegri en brennsla á jarðefnaeldsneyti, og síðast en ekki síst er orkuverð og orkubúskapur í Evrópu með þeim hætti að eftirspurn þar mun ekki linna næstu áratugi.

Orkulausir Bretar

Íslendingar hafa fyrst og fremst horft til Bretlands í þessu samhengi, enda er styst að leggja streng þangað og það þéttbýla land með nánast óslökkvandi orkuþörf. Ekki varðar þó minna, að Bretar eru nú þegar komnir í töluverð vandræði með orkuöflun, sem að mestu má rekja til þess að þeir heyktust á að endurnýja kjarnorkuver á sínum tíma, en núverandi kynslóð kjarnorkuvera mun renna sitt skeið áður en það næst að reisa ný í þeirra stað. Við bætast nýjar fregnir um að minni forði sé í olíulindum Norðursjávar en talið hefur verið.

Þá er ótalinn pólitískur þrýstingur, þar sem ótal margt annað getur sett strik í reikninginn, svo sem ef Skotar kjósa sér sjálfstæði í dag, Pútín skrúfar fyrir gasið til Evrópu eða heldur í hernað, að ógleymdum Miðausturlöndum, þar sem ástandið er með ótryggasta móti.

Ástandið þarf samt ekkert að versna til þess að Bretar gjói augunum til Íslands, því nú þegar eiga þeir við orkuskort að etja. Það er mest áberandi á veturna þegar húshitunarkostnaður er við það að sliga marga og raunar er fjöldi dauðsfalla ár hvert rakinn til þess að efnalítið aldrað fólk ofkælist heima hjá sér.

Vandinn er þó ekki einungis hátt orkuverð, heldur er framboðið einfaldlega ekki nóg. Þannig voru sagðar af því fréttir í júní, að hætt hefði verið mikil áform um byggingu hátæknimálmsteypu í stálborginni Sheffield einfaldlega vegna þess að ekki hefði verið unnt að fá trygga orku.

Nánar er fjallað um málið í Orkublaðinu sem fylgdi Viðskiptablaðinu 18. september 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .