Tíminn til að uppfylla aðalmarkmið stjórnarflokkanna -- um jafnvægi og stöðugleika í efnahagsmálum -- er þó skammur að mati Tryggva Þórs Herbertssonar forstöðumanns Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Tryggvi tekur djúpt í árinni og segir að Íslendingar séu í raun á síðasta snúningi með að sýna að þeir geti stjórnað peningamálum sínum sjálfir.

"Peningamálastjórnunin hefur verið mjög einbeitt núna undanfarið en það er greinilega ekki nóg, sérstaklega vegna þess að áhrif hennar koma seint fram," segir Tryggvi. "Þá er ekkert annað að gera en að beita ríkisfjármálum, skera niður ríkisútgjöld og fresta skattalækkunum. Ég held að það sé engin spurning að slíkar aðgerðir eru nauðsynlegar. Til viðbótar þarf síðan að ganga frá Íbúðalánasjóði til að slá á þensluna, gera hann að heildsölubanka eða selja bönkunum hann; með öðrum orðum að tryggja að ríkið dragi sig út af þessum samkeppnismarkaði og hætti að skekkja hann."

Tryggvi segir ljóst að boðuð lækkun á tekjuskatti um næstu áramót verði olía á eldinn og telur nauðsynlegt að fresta henni.

"Stjórnvöld þurfa að taka sig saman í andlitinu og koma með trúverðuga áætlun um hvernig eigi að minnka eftirspurn í hagkerfinu þannig að aðilar vinnumarkaðarins eigi auðveldara með að ná saman í haust og koma í veg fyrir víxlhækkanir launa og verðlags upp á gamla mátann. Ef við náum ekki tökum á verðbólgu og verðbólguvæntingum er algjörlega ljóst að þessi peningamálastefna er að syngja sitt síðasta. Þá er ekkert annað að gera en að láta einhverja aðra um að stjórna peningamálum á Íslandi," segir Tryggvi.

Sjá Viðskiptablaðið í dag nánar.