Væntingavísitala Gallup hefur nú aldrei verið lægri og mælist aðeins 19,5, en áður hafði hún lægst farið í 23,2 stig í nóvember síðastliðnum.

Frá þessu er greint í Morgunkorni Glitnis en Capacent Gallup birti í morgun Væntingavísitölu (VVG) fyrir janúar.

Greining Glitnis segir í Morgunkorni að ástæðuna megi rekja til ótíðinda úr efnahagslífinu, ört vaxandi atvinnuleysi og óróa í stjórnmálunum.

Þá kemur fram að 94% svarenda telja núverandi ástand slæmt en 0,2% telur það gott.

Væntingar til næstu sex mánaða lækka einnig talsvert, og telja nú ríflega 65% svarenda að ástandið verði verra að hálfu ári liðnu, en tæp 14% svarenda telja að það verði betra.

Þá kemur einnig fram að allar undirvísitölur lækka milli mánaða.

Þá minnir Greining Glitnis á að svörum fyrir VVG er safnað í fyrri hluta hvers mánaðar, og nær mælingin nú því ekki til síðustu viku þegar sem mest gekk á í stjórnmálunum hér á landi.

Heimilin afhuga stórkaupum

Svokölluð stórkaupavísitala, sem birt var með VVG í morgun og er ársfjórðungsleg vísitala fyrirhugaðra stórkaupa, hefur einnig aldrei verið lægri og mælist nú 39,8 stig en mældist í september síðastliðnum 62,4 stig.

Í Morgunkorni Glitnis kemur fram að sú sveifla nær yfir alla þrjá undirliði stórkaupavísitölunnar: Bifreiðakaup, utanlandsferðir og húsnæðiskaup.

Þannig fellur vísitalan fyrir bifreiðakaup um helming frá septembermælingunni, vísitalan fyrir utanlandsferðir um þriðjung og vísitalan fyrir húsnæðiskaup um 40%.

„Ef marka má þessa mælingu er útlitið ekki ýkja bjart næsta hálfa árið fyrir bílaumboð og þau fyrirtæki í ferðaþjónustu sem fyrst og fremst gera út á innlendan markað,“ segir Greining Glitnis í Morgunkorni.

„Ekki bendir hún heldur til þess að líf færist í húsnæðismarkaðinn á næstunni. Mælingin styður þó við þá skoðun okkar að ört minnkandi innflutningur á bifreiðum og minni ferðagleði landans muni stuðla að afgangi á utanríkisviðskiptum næstu misserin.“