Væntingavísitala Gallup tók kipp í mánuðinum og mælist hún nú 101 stig. Þetta er 14 stiga hækkun á milli ára. Vísitalan hefur ekki farið yfir 100 stig síðan í febrúar árið 2008. Greining Íslandsbanka segir í Morgunkorni sínu lesa úr niðurstöðunum að svo virðist sem heimili landsins búist við verulegri breytingu til  batnaðar strax á hveitibrauðsdögum nýrrar ríkisstjórnar.

Könnunin var gerð á tímabilinu 2. - 8. maí síðastliðinn, sem var eftir alþingiskosningar en áður en ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks var mynduð. Greining Íslandsbanka segir þingkosningarnar lita væntingavísitöluna og séu Íslendingar almennt ánægðir með úrslit kosninganna.

Þetta er hins vegar ekkert einsdæmi því fyrir hrunið 2008 hækkaði vísitalan að jafnaði talsvert meira á milli apríl og maí á kosningaárum en á öðrum árum og virðist Íslendingar þar með fyllast almennt af aukinni bjartsýni þegar ný ríkistjórn tekur við völdum, að sögn Greiningar Íslandsbanka. Tekið er fram í Morgunkorninu að kosningaárið 2009 þegar vinstri stjórn Samfylkingar og VG var undantekning frá þessu enda var kreppan á þeim tíma að grafa sig dýpra og dýpra inn í hagkerfið.