Þekktir Íslendingar hafa komið saman til að framleiða kvikmyndina The Three Dogateers Save Christmas. Um er að ræða jólamynd fyrir alla fjölskylduna þar sem leikarinn Dean Cain er í aðalhlutverki. Hann er best þekktur fyrir hlutverk sitt sem Superman í þáttunum Lois & Clark: The New Adventures of Superman á tíunda áratugnum.

„Myndin fjallar um þrjá talandi hunda sem persóna Dean Cain á. Hann skilur þá óvart eftir heima og þeir enda á að lenda í ævintýri...en að lokum bjarga þeir jólunum.“ Segir Sindri Már Finnbogason í viðtali við Fréttatímann .

Íslenskir framleiðendur myndarinnar eru Sindri Már Finnbogason, Georg Holm og Orri Páll Dýrason úr hljómsveitinni Sigur Rós, Kári Sturluson, einn umboðsmaður Sigur Rósar, Andri Freyr Viðarsson útvarpsmaður, auk mæðginana Helgu Olafsson og Kristjáns Olafsson.

„Myndin er tilbúin og okkur líst vel á þau brot sem við höfum séð úr henni, Myndin var kynnt á American Film Market-hátíðinni og fékk fínar viðtökur. Hún komst meðal annars á forsíður Variety. Nú er búið að selja myndina, henni verður dreift í stórmörkuðum í Bandaríkjunum og fer í kjölfarið á Netflix og iTunes,“ segir Sindri.

Draumurinn er svo að hún verði sýnd á Íslandi fyrir jólin.