Íslenskir neytendur eru líklegri til þess að ráðast í stórkaup nú en þeir hafa verið frá hruni, af því er fram kemur í frétt frá Greiningu Íslandsbanka. Þar segir að þetta megi lesa úr niðurstöðum ársfjórðungslegrar mælingar Capacent Gallup á fyrirhuguðum stórkaupum neytenda sem birtar voru nú í morgun samhliða Væntingavísitölu Gallup.

Stórkaupavísitalan mælir hversu líklegir neytendur eru til þess að festa kaup á húsnæði eða bifreið á næstu 6 mánuðum, eða ferðast til útlanda á næstu 12 mánuðum. Þó var ekki um mikla breytingu að ræða frá síðustu mælingu sem var í mars, en vísitalan hækkaði aðeins um rúm 2 stig frá þeim tíma. Mælist stórkaupavísitalan nú 55,3 stig, sem er hæsta gildi hennar frá því september 2008.

Fleiri huga að bíla- og húsnæðiskaupum

Greining Íslandsbanka segir hækkun stórkaupavísitölunnar megi rekja til hækkunar á öllum undirvísitölum hennar. Vísitalan fyrir bifreiðakaup hækkar um rúm 4 stig frá síðustu mælingu, og mælist hún nú 20,9 stig sem er næsthæsta gildi hennar frá hruni. Töldu rúmlega 12% aðspurða það mjög eða frekar líklegt að þeir myndu festa kaup á bifreið á næstu 6 mánuðum en rúmlega 79% mjög eða frekar ólíklegt. Frá hruni hefur þessi vísitala farið hæst í 23,1 stig sem var í júní árið 2010, en lægst fór hún niður í 10,5 stig sem var í desember árið 2008. Á þenslutímabilinu frá 2005 til snemma árs 2008 mældist vísitalan að jafnaði 35 stig.

Vísitalan sem metur líkur á því að einstaklingur ráðist í húsnæðiskaup á næstu 6 mánuðum hækkaði einnig lítillega á milli mælinga. Frá mars til júní nam hækkunin 1 stigi og mælist hún nú 7,1 stig. Töldu nú rúmlega 91% aðspurða það mjög eða frekar ólíklegt að þeir myndu ráðast í húsnæðiskaup á næstu 6 mánuðum en rúmlega 4% líklegt. Frá hruni hefur þessi vísitalan farið hæst í 8,1 stig, sem var í júní í fyrra, en lægst í 3,2 stig sem var í desember árið 2011. Á ofangreindu þenslutímabili, þ.e. frá 2005 til 2008, mældist þessi vísitala að jafnaði rúm 13 stig.