Íslendingar eru á allt öðrum stað í ferlinu hvað varðar olíuvinnslu en Norðmenn og því er ekki öruggt að besta leiðin sé að fylgja stefnu Norðmanna í dag hvað varðar skattastefnu á olíuleit og vinnslu.

Thina Margrethe Saltvedt, sérfræðingur hjá Nordea Markets, og Per Mathis Kongsrud, aðstoðarframkvæmdastjóri í fjármálaráðuneyti Noregs, héldu erindi á morgunverðarfundi Arion banka um olíu á Drekasvæðinu í síðustu viku. Í erindum sínum fóru þau yfir hagræn áhrif þess að finna olíu og hvernig fara skuli með slíkan auð. Að fundi loknum settust þau niður með blaðamanni Viðskiptablaðsins og ræddu um reynslu Norðmanna af stofnun olíusjóðsins og þær áskoranir sem Íslendingar standa frammi fyrir.

Breytilegt skattkerfi
Það er mikilvægt að hafa í huga að skattkerfið í Noregi hefur þróast mikið í gegnum árin,“ segir Per Mathis og bætir við að skattafyrirkomulagið sem gildi í Noregi í dag sé ekki endilega það sem henti Íslendingum best. Olíuvinnsla er á allt öðrum stað í ferlinu í Noregi en hér á landi. „Á efri stigum ferlisins eru innviðirnir til staðar, þú veist að það er olía til staðar og það er vinnsla á mörgum svæðum. Á sumum þeirra er framleiðslan á niðurleið og áskorunin getur verið að ná upp síðustu dropunum,“ segir Per Mathis og bætir við að slíkar aðstæður eru öðruvísi en í upphafi ferlisins þar sem verið er að reyna að fá stórar fjárfestingar í gang á stórum svæðum.

Per Mathis segir að eitt af því sem aðgreinir Noreg frá öðrum löndum sé einnig þáttaka ríkisins. Ríkissjóður tekur oft stöðu í einstaka leitarsvæðum og greiðir þá hluta af kostnaði í samræmi við eignarhlut við leit að olíunni. Þetta er oft gert þegar um er að ræða svæði sem talin eru sérstaklega arðsöm. Með þessu skapar ríkissjóður sér auknar tekjur til viðbótar við skatttekjurnar. En til þess að gera þetta þarf ríkissjóður að hafa efni á að taka þátt í leitarkostnaði. Slíkt getur þó verið erfitt í byrjun olíuleitarferlis og til að mynda hóf norski ríkissjóðurinn ekki að taka þátt í olíuleit með þessum hætti fyrr en árið 1986.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.