Íslenskir neytendur eru langt frá því að vera bjartsýnir á horfur í efnahags- og atvinnumálum nú í árslok ef marka má Væntingavísitölu Gallup sem birt var nú rétt fyrir hádegi. Þannig lækkaði vísitalan um rúm 2 stig milli nóvember og desember og er gildi hennar nú 48,3 stig.

Þetta segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka sem fjallar um málið í dag. „Á árinu hefur hún mælst að meðaltali 53 stig og er því ljóst að landinn er heldur svartsýnni nú en hann hefur að jafnaði verið á þessu ári. Eins og kunnugt er mælir vístalan væntingar neytenda til efnahags- og atvinnulífsins, og þegar vísitalan er undir 100 stigum eru fleiri neytendur svartsýnir en bjartsýnir,“ segir í morgunkorni.

Úr morgunkorni:

„Svartsýnni á framtíðina

Allar undirvísitölur Væntingavísitölunnar, að mati á núverandi ástandi undanskildu, lækkuðu á milli nóvember og desember. Þannig hækkaði vísitalan lítillega sem mælir mat á núverandi ástandi, eða úr 10,8 stigum í 12,4 stig, og er því ljóst að landinn er langt í frá að vera sáttur með ástandið nú í efnahags- og atvinnumálum. Væntingar til aðstæðna eftir 6 mánuði lækkuðu um tæp 5 stig og mælist sú vísitala nú 72,3 stig, en þess má geta að hún hefur að meðaltali verið yfir 80 stig á árinu og er því ljóst að landinn er orðinn mun svartsýnni á framtíðina en  hann hefur að jafnaði verið á árinu. Þess má geta að ekki er langt um liðið síðan þessi vísitala mældist yfir 100 stig, sem gerðist þrjá mánuði í röð, þ.e. á tímabilinu júlí til og með september. Mat á efnahagslífinu lækkaði svo um 2 stig og mat á atvinnuástandinu um 3 stig.

Áhugi á húsnæðiskaupum að aukast

Með Væntingavísitölu Gallup fylgdi að þessu sinni mæling á ársfjórðungslegri vísitölu fyrirhugaðra stórkaupa. Vísitalan fyrir fyrirhuguð stórkaup stendur nánast í stað frá síðustu mælingu sem átti sér stað í september síðastliðnum og mælist hún nú 52,5 stig. Vísitalan fyrir fyrirhuguð bifreiðakaup lækkar lítillega og mælist nú 17 stig. Sama gildir um vísitöluna sem mælir fyrirhugaðar utanlandsferðir, en þó mælist gildi hennar mun hærra en þeirrar sem undan er getið, þ.e. 133,4 stig. Er því ljóst að enn ríkir nokkur ferðagleði hjá landanum, sem er í takti við tölur sem Ferðamálastofa tekur saman og birtir en þær sýna að stöðugt fleiri Íslendingar eru á faraldsfæti. Á hinn bóginn hækkar vísitalan sem mælir fyrirhuguð húsnæðiskaup, eða úr 4,3 stig í 7,0 stig, og þess má geta að þrátt fyrir að vísitalan sé nú ekki há þá hefur hún ekki verið hærri síðan í september fyrir hrun. Bendir þetta því til þess að meira líf sé að fara að færa yfir húsnæðismarkaðinn næsta kastið en verið hefur undanfarin misseri. Vísitala efnahagslífsins enn við lægstu mörk

Niðurstöður ársfjórðungslegrar könnunar sem Capacent Gallup gerir á meðal stjórnenda stærstu fyrirtækja landsins um aðstæður í efnahagslífinu bera það með sér að stjórnendur séu enn svartsýnir á aðstæðurnar. Þannig telja 84% stjórnenda aðstæður í efnahagslífinu slæmar, 15% telja þær hvorki góðar né slæmar og nánast enginn að þær séu góðar. Er þetta í takti við þær niðurstöður sem fengist hafa allt frá bankahruni þar sem yfirgnæfandi meirihluti stjórnenda hefur talið núverandi aðstæður slæmar. Könnunin var gerð á tímabilinu 8. til 22. desember og hefur þar með afstaða stjórnenda lítið breyst frá síðustu könnun sem var framkvæmd á tímabilinu 8. september til 1. október síðastliðinn. Þá töldu 80% stjórnenda  aðstæður slæmar, 20% hvorki slæmar né góðar og enginn að þær væru góðar. Þessi könnun er framkvæmd fyrir Samtök atvinnulífsins (SA), fjármálaráðuneytið og Seðlabanka Íslands og voru niðurstöður hennar birtar á heimasíðu SA nú í gær.

Aðeins fjórðungur stjórnenda sér fram á betri tíð

Um 25% stjórnenda telja að aðstæður verði betri eftir 6 mánuði, en hlutfallið hafði verið 20% í síðustu könnun. Fjöldi þeirra sem telja að ástandið eigi eftir að versna á tímabilinu er svipaður og síðast, eða um 30% á móti 29%. Telur þá afgangurinn, þ.e. 45% stjórnenda, að ástandið verið óbreytt eftir 6 mánuði. Jafnframt kemur fram í fréttatilkynningu SA að svartsýnin sé mun meiri á meðal stjórnenda á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Þannig telja tæplega 13% stjórnenda á landsbyggðinni að ástandið muni batna á móti 28% stjórnenda á höfuðborgarsvæðinu, og er bjartsýni einna helst að finna hjá stjórnendum í fjármálastarfsemi og ýmissri sérhæfðri þjónustu.

Horfur á vaxandi atvinnuleysi

Hvað vinnumarkaðinn varðar er sýn stjórnenda svipuð og í fyrri könnunum og telja nær allir aðspurðir sig hafa nægt starfsfólk. Einungis 5,5% telja sig búa við skort á starfsfólki og kemur fram í tilkynningu SA að það virðist vera mest í fjármála- og tryggingarstarfsemi. Þetta hlutfall var 8% í síðustu könnun. Ráðningaráform stjórnenda eru ekki upp á marga fiska og benda þau til þess að samdráttur á vinnumarkaði haldi áfram á næstu mánuðum og atvinnuleysi fari vaxandi. Þannig eru þeir mun fleiri sem huga að því að fækka starfsmönnum en fjölga þeim, eða um 26% á móti 14%, og er niðurstaðan í raun aðeins lakari en í síðustu könnun þegar hlutföllin voru 25% og 17%. Stjórnendur í iðnaði og framleiðslu eru svartsýnastir hvað ráðningaráform varðar og reikna með mestri fækkun, en stjórnendur í fjármála- og tryggingarstarfsemi bjartsýnastir og er þar með mesta fjölgunin áformuð í þeirri starfsemi.

Þessar niðurstöður gefa því til kynna að það syrti enn í álinn á næstu mánuðum á vinnumarkaði. Skráð atvinnuleysi hefur nú aukist tvo mánuði í röð og má reikna með að það komi til með að aukast enn frekar á næstu mánuðum. Er það bæði vegna árstíðarbundinna áhrifa og vegna þess að miðað við þessar niðurstöður má ætla að efnahagsástandið muni einnig láta til sín taka. Í nóvember síðastliðnum mældist skráð atvinnuleysi 7,7% og reiknar Vinnumálastofnun með að það komi til með að verða á bilinu 7,8% til 8,1% í desember.“