Íslensk eignastýring ehf. hefur keypt 35,01% hlut í Íslenskum verðbréfum hf. Íslensk eignastýring er í eigu Sævars Helgasonar, framkvæmdastjóra Íslenskra verðbréfa og Ásgeirs Más Ásgeirssonar, forstöðumanns verðbréfamiðlunar ÍV. Fjármálaeftirlitið hefur samþykkt umsókn Íslenskrar eignastýringar um að eignast þennan hlut í Íslenskum verðbréfum hf.
Eftir viðskiptin er Íslensk eignastýring ehf. stærsti einstaki hluthafi Íslenskra verðbréfa hf. Hluthafar í félaginu eru lífeyrissjóðir, sparisjóðir og nokkrir starfsmenn félagsins, alls 17 aðilar.

Engar breytingar eru fyrirhugaðar á rekstri félagsins. Í tilkynningu vegna kaupanna kemur fram að félagið hefur mikla sérstöðu á íslenskum fjármálamarkaði og ætlun allra hluthafa félagsins er að efla félagið enn frekar með tilliti til þessarar sérstöðu.

Íslensk verðbréf hf. er sérhæft eignastýringarfyrirtæki og stýrir í dag um 56 milljörðum króna fyrir hönd viðskiptavina sinna. Viðskiptavinir félagsins eru að stærstum hluta fagfjárfestar. Félagið er eina sérhæfða eignastýringarfyrirtækið hér á landi og nýtur mikils trausts meðal viðskiptavina sinna.

Rekstur Íslenskra verðbréfa hf. hefur gengið vel á undanförnum árum og námu tekjur félagsins á árinu 2004 tæpum 500 milljónum króna og hagnaður eftir skatta nam 233 milljónum króna.