Þótt það séu enn erfiðir tímar á Íslandi eru miklir möguleikar fyrir góð íslensk fyrirtæki að sækja sér hlutafé í Noregi, annað hvort með skráningu í kauphöllinni þar eða með því að fá nýtt hlutafé frá þarlendum fjárfestum.

Þótt staðan í íslenskum efnhagsmálum sé erfið enn sem stendur breytir það ekki því að það hillir undir að vora muni á nýjan leik í íslenska hagkerfinu og þá verða mörg íslensk fyrirtæki í stakk búin til þess að vaxa. Til þess að það verði mögulegt verða þau að hafa góðan aðgang að fjármagni og afar líklegt er að hluti þeirra muni hafa áhuga á að fá inn nýtt eigið fé og þá um leið að fá breiðari og alþjóðlegri eigendahóp sem gæti stutt við framtíðarvöxt þeirra. Í því tilliti stendur Noregur Íslandi næst af öllum löndum enda menning og tunga þjóðanna náskyld. Því er eðlilegt að íslensk fyrirtæki sem horfa fram á við skoði þann möguleika að sækja sér nýtt hlutafé þar, hugsanlega með skráningu í kauphöllinni í Osló eða með því að sækja sér nýtt hlutafé beint til norskra fjárfesta.

Þetta segja þeir Bjørn Richard Johansen og Henno Grenness frá ráðgjafar- og samskiptafyrirtækinu FirstHouse (www.firsthouse. as) í Osló en þeir hafa unnið að því að kynna möguleika fyrir íslensk fyrirtæki í Noregi. FirstHouse var stofnað haustið 2009 og er þegar orðið eitt af leiðandi fyrirtækjum Noregs í stefnumótandi ráðgjöf á sviði fjármála og stjórnmála. Hjá fyrirtækinu starfa nær 20 sérfræðingar með mikla reynslu úr norsku stjórnmála-, fjármála- og atvinnulífi. Bjørn þekkir afar vel til Íslands og hefur unnið fyrir bæði íslensk fyrirtæki og íslensk stjórnvöld en Henno vann í um áratug sem ráðgjafi hjá DnB NOR Markets þar sem hann vann m.a. að skráningu fjölda fyrirtækja í kauphöllina í Osló og kom að fjármögnun fyrirtækja.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .