Avion Group skipar annað sæti yfir þau evrópsku fyrirtæki sem eru mest vaxandi og atvinnuskapandi, samkvæmt úttekt sem birtist í gær í tíunda tölublaði Europe's 500. Kögun skipar sjöunda sætið, Össur það 67., Creditinfo Group 81. og TM Software situr í 122. sæti.

Europe's 500 var fyrst gefið út árið 1996 af frumkvæði Europe's 500 - Entrepreneurs for Growth. Það eru samtök sem ekki starfa í hagnaðarskyni en í þágu ört vaxandi fyrirtækja.

Íslensku fyrirtæki fimm hafa samanlagt skapað alls 5.947 ný störf á tímabilinu frá 31. desember 2002 til 31. desember 2005 og mælist árleg aukning 72% og þykir mjög athyglisvert , enda um fimm sinnum hærra meðaltal en hið samevrópska meðaltal og hæsta aukningin á meðal 25 landa, segir í tilkynningu.

Starfsmönnum Avion Group fjölgaði úr 672 starfsmönnum í lok ársins 2002 í um 4500 þremur árum síðar, starfsmönnum Kögunar fjölgaði úr 123 í 1250 á tímabilinu, starfsmannafjöldi Össurar fór úr 431 í 1000, starfsmannafjöldi Creditinfo Group fór úr 35 í 210 og starfsmannafjöldi TM Software fór úr 184 í 432 við lok tímabilsins.

Meðalstór fyrirtæki eru leiðandi í atvinnuaukningu í Evrópu og hafa skapað 150.000 ný störf í Evrópu á undanförnum þremur árum. Niðurstöðurnar sýna einnig að hefðbundnar atvinnugreinar eru ekki mælikvarðinn fyrir atvinnuaukningu.

Fyrirtæki á 500 listanum var að finna á öllum sviðum. Upplýsingatæknigeirinn (þjónusta og framleiðsla) var þó sú atvinnugrein með flest fyrirtæki á listanum með 150 fyrirtæki eða 30%. Hefðbundin framleiðslufyrirtæki eru þó framarlega í Evrópu. Það á þó ekki við á Íslandi þar sem þjónusta í upplýsingatæknigeiranum, líftækni- og heilbrigðisgeirinn, fjármálaþjónusta og flutningsgeirinn eru hvað mest áberandi.