Fimm þingmenn úr öllum flokkum á Alþingi vilja að fjármálaráðherra, fyrir hönd íslenska ríkisins, fái heimild til þess að styrkja þrotabú Landsbankans og Kaupþings í mögulegri málsókn þeirra gegn breskum stjórnvöldum.

Í greinargerð frumvarpsins er rifjað upp að bresk stjórnvöld hafi hinn 8. október sl. fryst eignir Landsbankans þar í landi á grundvelli ákvæða hryðjuverkalaga.

„Sama dag gripu bresk stjórnvöld til aðgerða sem gerðu að verkum að stærsta dótturfélag Kaupþings banka hf., Singer & Friedlander, var knúið í greiðslustöðvun. Í kjölfarið varð Kaupþing banki hf. ógjaldfær," segir í greinargerð með frumvarpinu.

Þar segir enn fremur að sú skoðun hafi ávallt notið mikils stuðnings á Íslandi að höfða ætti mál gegn breskum stjórnvöldum fyrir breskum dómstólum til að freista þess að fá það viðurkennt að með aðgerðum sínum hafi bresk stjórnvöld brotið lög og farið offari gagnvart Íslendingum og íslenskum hagsmunum.

Í greinargerðinni segir að það sé þó fyrst og fremst kröfuhafar bankanna tveggja sem ákveði hvort höfða skuli mál gegn breskum stjórnvöldum.

„Telja verður hins vegar líklegt að kröfuhafarnir hafa annaðhvort takmarkaðan áhuga á að fjármagna málshöfðun gegn breskum stjórnvöldum eða þá að þeir treysta sér ekki til þess af ýmsum ástæðum," segir í greinargerðinni.

Því er lagt til að íslenska ríkið fjármagni mögulega málshöfðun.

„Flutningsmenn frumvarpsins telja það varða miklum almannahagsmunum að í málsókn á hendur breskum yfirvöldum verði ráðist til að freista þess að fá úr því skorið hvort aðgerðir breskra stjórnvalda gegn íslenskum lögaðilum á tímabilinu 1. október til 1. desember 2008 hafi brotið gegn lögum. Verði niðurstaða slíkrar málshöfðunar jákvæð getur stofnast til skaðabótaréttar á hendur breska ríkinu. Þegar af þeim ástæðum er mikilvægt að til slíks málareksturs sé stofnað."

Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks.

Meðflutningsmenn eru: Árni Páll Árnason, Katrín Jakobsdóttir, Höskuldur Þórhallsson og Jón Magnússon.

Sjá frumvarpið í heild sinni.