Íslenska auglýsingastofan hefur hlotið fjórar tilnefningar til Euro Effie verðlaunanna fyrir auglýsingaherferð sína „Ask Guðmundur.“

Er hún hluti af Inspired by Iceland herferð Íslandsstofu, en hún er orðin ein mest verðlaunaða ferðaþjónustuherferð heims. Vann hún Gull Euro Effie árin 2011 og 2013.

Notendum boðið að spyrja um Ísland

Er Ask Guðmundur herferðin tilnefnd í fjórum ólíkum flokkum, en hún byggir á að gera notendum samfélagsmiðla kleyft að spyrja ólíka Íslendinga, sem allir bera nafnið Guðmundur eða Guðmunda, um Ísland, hefðir, náttúru og menningu.

Tefldi hver landshluti fram sínum eigin fulltrúa sem sá svo um að svara þeim spurningum sem bárust, en yfir 1.000 spurningar frá meira en 50 löndum bárust herferðinni. Var yfir 100 þessara spurninga svarað með sérstökum myndböndum á samfélagsmiðlum sem hægt er að sjá á YouTube rás Inspired by Iceland.

Þetta er í 20. sinn sem Euro Effi verðlaunin eru veitt, en þau eru ein virtustu auglýsingaverðlaun heims, og er dómnefndin skipuð fagfólki með markaðs- og auglýsingareynslu.