Íslenskir kaupmenn geta opnað verslanir og heildsölur í Kína frá 11. desember næstkomandi en þann dag verða reglur fyrir verslunarrekstur útlendinga rýmkaðar verulega vegna ákvæða í aðildarsamnings Kína að Alþjóðaviðskiptastofnunni (WTO) frá 2001. Eftir töluverðu er að slægjast en smásöluverslun í Kína jókst um 10% árið 2003 og neytendur í Kína eru 1,3 milljarðar og hagvöxtur er mjög hár.

Um 20 milljónir verslana eru í Kína í dag og 75% af þeim eru keðjuverslanir. Hingað til hafa aðeins allra stærstu verslunarkeðjur átt tök á því að setja upp takmarkaðan verslunarrekstur í Kína, og 25 af 50 stærstu verslunarkeðjum heims - fyrirtæki á borð við Wal Mart og Carrefour - eru þegar með nokkrar verslanir. Vitað er til þess að fjölmargar keðjur bíði í röðum eftir að komast til Kína eftir að reglurnar verða rýmkaðar þann 11. desember.

Emil B. Karlsson, hjá Samtökum verslunar og þjónustu segir í Viðskiptablaðinu í dag, að ljóst sé að í Kína séu að opnast gríðarleg tækifæri, kaupmenn á Vesturlöndum eigi eftir að reyna þar fyrir sér í auknum mæli og Emil telur jafnframt eðlilegt að íslenskir kaupmenn muni einnig gera það - næsta skref í útrás íslenskrar verslunar á eftir Bretlandseyjum sé Asía. "Stórverslanir virða engin landamæri og fara víða, en ég veit ekki hvort við eigum eftir að sjá Bónus í Kína," segir Emil en hann segir þó að nokkuð sé rætt um tækifærin í Kína meðal íslenskra kaupmanna.

Aðildarsamningur Kína að WTO kveður ekki aðeins á um verulega lækkun tolla heldur er Kínverjum óheimilt að lokinni aðlögun, að mismuna löndum í verslun. Kína þarf einnig að auka frelsi í þjónustuviðskiptum í skrefum og afnema ýmiskonar viðskiptahindranir. Kína er fjórði stærsti viðskiptaaðili heims og viðskipti Kínverja aukast hröðum skrefum.