Viðhorf íslenskra fjármálastjóra gagnvart þróun tekna á næstu tólf mánuðum mælist jákvæðast í Evrópu en nettóhlutfallið er jákvætt um 68% samanborið við 44% meðal fjármálastjóra í Evrópu.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í könnun sem var framkvæmd af Deloitte í mars síðastliðnum og náði til 1.366 fjármálastjóra fyrirtækja í 15 Evrópulöndum, þar á meðal á Íslandi. Könnunin var send til fjármálastjóra 300 stærstu fyrirtækja landsins. Meðaltal niðurstaðna í Evrópu er vegið eftir landsframleiðslu hvers lands.

Rúmlega helmingur íslenskra fjármálastjóra þvert á atvinnugreinar telur að EBITDA muni aukast á næstu tólf mánuðum. Mælist viðhorfið jákvætt fyrir allar atvinnugreinar þar sem fleiri en fjögur svör bárust. Lægst var hlutfallið meðal íslenskra fjármálastjóra hjá fyrirtækjum í verslunar- og þjónustustarfsemi.

„Það er skemmtilegt að sjá að áfram eru íslenskir fjármálastjórar að mælast umtalsvert bjartsýnni en kollegar þeirra erlendis. Við höfum ítrekað í síðustu könnunum verið að mælast á toppnum þegar kemur að bjartsýni gagnvart þróun tekna, framlegðar, fjárfestingar og starfsmannafjölda,“ segir Lovísa Anna Finnbjörnsdóttir, meðeigandi og sviðsstjóri fjármálaráðgjafar Deloitte.

Spurð út í hvað gæti skýrt þessa jákvæðni segir hún að íslenska hagkerfið eigi það til að vera fljótara að rétta úr kútnum samanborið við önnur lönd. Þá sé ekki orkukrísa hér á landi eins og á meginlandi Evrópu.

Fjallað er nánar um fjármálastjórakönnun Deloitte í Viðskiptablaðinu, sem kom út í gærmorgun.