Tveir íslenskir tölvunarfræðinemar við Háskólann í Reykjavík hlutu tvenn verðlaun fyrir lokaverkefni sín á nýafstaðinni alþjóðlegri ráðstefnu sem haldin var í Tókíó í Japan.

Verðlaunin hlutu þeir Bjarni Þór Árnason og Ægir Þorsteinsson á fræðasviði sýndarmenna (Intelligent Virtual Agents). Verkefnið, sem kallast „CADIA BML Realizer“, er unnið í samvinnu við Suður-Kaliforníuháskóla, og er opið safn verkfæra til að myndgera og kvika sýndarmenni í þrívíðum sýndarheimum.

Þetta er fyrsta aðgengilega kvikunarvélin sem tekur við hreyfilýsingu á BML formi ("Behavior Markup Language"), sem er nýr alþjóðlegur staðall til að lýsa nákvæmri samhæfingu líkamshreyfinga.

Verkefnið var sent í sérstaka keppni nemendaverkefna í tengslum við ráðstefnuna og deildi fyrstu verðlaunum dómnefndar með einu öðru verkefni, en fékk að auki sérstkök áheyrendaverðlaun í almennri kosningu. Í umsögn um verkefnið sagði dómnefnd að með framlagi sínu stuðluðu Bjarni og Ægir meðal annars að bættri samvinnu alþjóðlegra rannsóknarhópa á sviði sýndarmenna þar sem lítið hefur verið um stöðluð og aðgengileg verkfæri fram að þessu.

BSc-lokaverkefni Bjarna Þórs og Ægis var unnið hjá Gervigreindarsetri Háskólans í Reykjavík sl. vor undir leiðsögn Hannesar Högna Vilhjálmssonar, lektors við tölvunarfræðideild HR. Þess má geta að á þessari ráðstefnu fluttu að auki tveir meistaranemar Gervigreindarsetursins fræðierindi, og var grein annars þeirra, Guðnýjar Rögnu Jónsdóttur, tilnefnd til verðlauna sem besta fræðigrein nemanda.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Háskólanum í Reykjavík.