*

sunnudagur, 5. desember 2021
Innlent 25. september 2013 18:07

iPad á Íslandi með þeim dýrari í heimi

iPad-tölvur eru dýrastar í Argentínu en ódýrastar í Malasíu. Tölvurnar eru í hærri kantinum hér á landi.

Ritstjórn

iPad-spjaldtölvur frá Apple sem keyptar eru hér á landi eru í þriðja sæti yfir þær dýrustu í heimi í dölum talið. Dýrustu tölvurnar fást í Argentínu. Þar kostar ein 16 GB iPad 4-tölva með Retina-skjá sem svarar til 1.094 dala, samkvæmt samantekt ástralska fjármálafyrirtækisins CommSec. Tölvan er ódýrust í Malasíu en þar kostar sama tölva sem svarar til 474 dala, jafnvirði rúmra 57 þúsund íslenskra króna. 

Hér á landi er algengasta verðið á sömu tölvu 89.990 krónur eða sem svarar til rétt rúmra 743 dala. Verðin eru þau sömu í verslun Epli og iStore. Hjá Elko er sama tölva tæpum þrjú þúsund krónum ódýrari eða á 86.995 krónur. Sama iPad-tölva kostar svo 499 dali í netverslun Apple í Bandaríkjunum. 

Wall Street Journal segir margt skýra verðmuninn, s.s. álagningu, flutningskostnað, gengi gjaldmiðla og fleira.

Ísland er ekki á samanburðarlista CommSec yfir verð á iPad-tölvum. Ef landið væri á honum myndu iPad-tölvur keyptar hér á landi lenda í þriðja sæti yfir þau lönd þar sem iPad-tölvur eru hvað dýrastar.

Stikkorð: iPad Apple