Hugbúnaðurinn Vista Data Vision (VDV), sem framleiddur er af Verkfræðistofunni Vista, gegnir mikilvægu hlutverki í umhverfismælingum hjá svæðisskrifstofu DOE (Department of Energy) í bænum Grand Junction í Coloradofylki að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

Þar kemur fram að þessi skrifstofa annast meðal annars eftirlit með hreinsun náma eftir úraníumvinnslu, ástandi jarðvatns og fjölda mengunarmæla. Mælanet skrifstofunnar teygir sig um 4 fylki og tengist tugum mælistöðva. Allar þessar mælingar eru fluttar sjálfvirkt inn í VDV hugbúnaðinn og gerðar aðgengilegar hundruðum starfsmanna í fylkjunum fjórum í gegnum gagnvirkar vefsíður. Eins og segir í nýlegri fréttatilkynningu frá svæðisskrifstofunni, þá gegnir VDV hugbúnaðurinn afar þýðingarmiklu hlutverki í starfsemi skrifstofunnar.

Verkfræðistofan Vista hélt nýlega námskeið í Grand Junction fyrir notendur VDV hugbúnaðarins og til að kynna helstu nýjungar sem tengjast aðgengi veftengdra notenda að mælingum sem geymdar eru í gagnagrunni kerfisins.