Fjölbrautarskóli Snæfellinga (FSN) hefur í samstarfi við Nýherja verið valinn til þess að taka þátt í Appolo 11 afmælishátíð NASA í Bandaríkjunum en 40 ár eru liðin um þessar mundir frá því að maður steig fyrst fæti á tunglið.

FSN er einn af fimm framhaldsskólum utan Bandaríkjanna til þess að taka þátt í hátíðinni í gegnum gagnvirka útsendingu frá Johnson Space Center í Bandaríkjunum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nýherja en tildrög þess að FSN var valin má rekja til heimsóknar Marcy Powell, sem er ein af æðstu framkvæmdastjórum Polycom fyrirtækisins, til Nýherja í desember í fyrra.

Polycom, sem er einn fremsti framleiðandi í fjarfundalausnum, vinnur náið með NASA í þróun fjarfundabúnaðar og þegar undirbúningur hófst fyrir afmælishátíðina kom Powell því til leiðar við Nýherja að íslenskur skóli fengi að taka þátt í afmælishátíðinni. FSN er einn þeirra skóla sem nýtir fjarfundalausnir í kennslu sér til stuðnings og því ákvað Nýherji ásamt menntamálaráðuneytinu að bjóða skólanum fyrir hönd Polycom að því að taka þátt í hátíðinni.

Táknræn geimganga

Mikil dagskrá verður í FSN þann 19. nóvember í tengslum við afmælið. Meðal annars verður haldið þekkingarmaraþon. Þá munu nemendur í FSN leggja vanabundið nám til hliðar en starfa saman í áhugahópum um einstök málefni sem tengjast geimþemanu.

Um miðbik dagsins verður farið í táknræna tunglgöngu, þar sem gengin verður vegalengdin til tunglsins, þar sem 1 skref er tekið fyrir hverja mílu. Eftir hádegi opnar skólinn dyr sínar fyrir gestum og gangandi sem vilja fræðast um geiminn og geimferðir.  Síðdegis fær skólinn gesti í heimsókn sem kynna stjörnufræði og stjörnuskoðun – og vísindarannsóknir sem tengjast geimferðum og geimvísindum.

Lokapunktur dagskrárinnar er fundur nemenda með vísindamönnum í Johnson Space Center í Huston, Texas.  Nemendur munu fá tækifæri til að leggja spurningar fyrir vísindamenn stöðvarinnar og kynnast aðstæðum þar.