Taxware, sem er fyrirtæki sem sérhæfir sig í alþjóðlegum skattútreikningum, hefur birt lista yfir þær fimm einkennilegustu virðisaukaskattlagningar sem starfsmenn fyrirtækisins hafa rekið sig á og skipa Íslendingar sér þar í þriðja sæti.

Starfsmönnum Taxware þykir í hæsta máta einkennilegt að virðisaukaskattur á bókum sem skrifaðar eru á íslensku sé aðeins 14%, á meðan önnur tungumál fá 24,5% skattlagningu.

Íslenska löggjöfin er þarna í góðum félagsskap, því í fjórða sæti á listanum má finna löggjöf frá Belgíu sem segir til um að þeir sem safna og geyma mykju þurfi að greiða af henni 21% VSK, en aðeins 6% ef þeir hyggjast dreifa henni.

Eins má sjá á listanum að í Marakkó er rekstur á tyrkneskum böðum undanskilinn virðisaukaskatti, en greiða þarf hins vegar 7% VSK af þeirri sápu sem notuð er.

Það er þó tekið fram á listanum að Íslendingum sé mjög umhugað um málvernd og hafi tekist að halda tungumálinu óbreyttu síðan á 14. öld.