Fataframleiðandinn 66°NORÐUR hefur landað samningi við íþróttasjónvarpsstöðina Sky Sport í Þýskalandi sem felur í sér að íþróttafréttamenn stöðvarinnar klæðast Snæfell-jökkum í útsendingum stöðvarinnar frá íþróttaleikjum. Þetta er ekki fyrsti samningurinn sem 66°NORÐUR gerir þar í landi en íþróttafréttamenn Sport 1 í Þýskland klæðast Rok Coat-jökkum frá fyrirtækinu.

Fram kemur í tilkynningu frá 66°NORÐUR að jakkarnir komi sér vel nú þegar farið er að kólna í veðri í Þýskalandi.

Snæfell-jakkinn hefur unnið til margra virtra verðlauna í útivistargeiranum og verið mjög vinsæll hér heima sem og erlendis á undanförnum mánuðum. Björgunarsveitir Landsbjargar tóku nýverið Snæfell jakkann í notkun þar sem hann þykir henta vel við margvíslegar aðstæður.

Haft er eftir Helga Rúnari Óskarssyni, forstjóra 66°NORÐUR, að fatnaður fyrirtækisins hafi fengið mjög góðar viðtökur í Þýskalandi.

„Samningurinn við Sky Sport er mikilvægur áfangi í markaðssetningu okkar á meginlandi Evrópu og gefur fyrirtækinu og fatnaði þess mikinn sýnileika. Samkeppnin í útivistarfatnaði á þýska markaðnum er gríðarlega hörð. Þjóðverjar leggja mikið upp úr gæðum og kunna því að meta vörur eins og Snæfell jakkann sem er framleiddur úr besta vatnshelda öndunarefninu á markaðnum í dag undir mjög ströngu gæðaeftirliti í okkar eigin verksmiðjum í Evrópu,“ segir hann.

Verðmæti samningsins er trúnaðarmál.