Kínverskir tónlistarunnendur hafa átt í vandræðum með að ná í lög í gegnum vefverslun iTunes frá Apple á síðastliðnum dögum.

Ástæðan er sögð sú að nýlega var boðin til sölu plata í vefverslunni sem biðlaði meðal annars til kínverskra stjórnvalda um aukin réttindi Tíbet. Guardian segir frá þessu.

Kínverska ríkisstjórnin hefur slakað mjög á ritskoðun internetsins í kjölfar komu fjölda fjölmiðlamanna til landsins vegna ólympíuleikanna. Þó eru margar síður sem styðja málstað Tíbet enn lokaðar.

Apple í Kína hefur viðurkennt að vandamál hafi komið upp með iTunes-vefverslunina á síðustu dögum: „Við erum varir við ástandið, en getum því miður ekki gefið frekari upplýsingar,“ segir upplýsingafulltrúi Apple í Peking.