ITV fréttastöðin breska, sem sendir út fréttir allan sólarhringinn, mun hætta um áramótin. Henni var komið á fót árið 2000, undir nafninu ITN News Channel, en árið 2002 var nafninu breytt í ITV News Channel. Síðan hefur stöðin keppt við Sky News og BBC News 24, en frekað farið halloka.

Í síðasta mánuði var útsendingartímum stöðvarinnar á opinni rás ITV fækkað, sem leiddi til vangaveltna um framtíð hennar og nú hefur verið tilkynnt að dagar ITV News Channel séu taldir. Eigendur ITN segja að það fé sem annars hefði runnið til ITN News Channel muni nú renna til fréttadeildar ITV1, en einnig muni fréttaþjónusta verða aukin hjá ITV2 og ITV3. 25 starfsmenn munu missa vinnuna, að því er óstaðfestar fréttir herma.

Simon Shaps, yfirmaður hjá ITV, segir: "Við spurðum sjálf okkur hvernig líklegt væri að fréttir litu út eftir tíu ár. Svarið er að þær munu ekki líkjast þessu fréttir-allan-sólarhringinn sniði, sem við eigum að venjast. Áhorfendur vilja í sífellt meiri mæli geta sótt sér fréttir eftir þörfum, með ýmsum leiðum, og við erum að fjárfesta í nýrri tækni og sérfræðikunnáttu til að anna þeirri eftirspurn."