Sigríður Margrét Oddsdóttir hefur setið í forstjórasæti upplýsingafyrirtækisins Já frá því að það var stofnað árið 2005 og hefur leitt það í gegnum miklar sviptingar á þeim tíma. Árið 2011 var fyrirtækið selt frá Skiptum, móðurfélagi Símans, til fyrirtækis sem var í meirihlutaeigu Auðar 1 fjárfestasjóðs

Þú hefur talað um að Já sé að einhverju leyti í erlendri samkeppni við fyrirtæki eins og Google. Ef við horfum á Já sem fyrirtæki á alþjóðlegum grundvelli, gætuð þið séð fyrir ykkur að leita lengra en bara á Íslandsmarkað?

„Þetta er mjög mikilvægur punktur sem þú kemur inn á vegna þess að markaðsumhverfi allra íslenskra fyrirtækja hefur verið að breytast mjög hratt á síðustu árum. Það er sama hvort þú talar um fjölmiðlafyrirtæki, fjarskiptafyrirtæki eða upplýsingafyrirtæki eins og okkur. Með tilkomu upplýsingatækninnar og internettenginga út um allan heim þá hefur markaðssvæðið breyst svo mikið. Við erum að keppa á markaði þar sem neytendur eru að leita lausna á þeirri þjónustu sem við erum að bjóða og stór alþjóðleg fyrirtæki eru líka að bjóða. Við erum að keppa um það að fólk leiti til okkar eftir upplýsingum frekar en að fólk fari á erlendar eða alþjóðlegar upplýsingaveitur.“

Sigríður segir að með svipuðum hætti sé fyrirtæki eins og 365 að keppa við Netflix og aðrar sambærilegar streymiveitur.

„Markaðsumhverfið hefur því breyst hratt en það er ekkert sem segir að við getum ekki náð góðum árangri í þessari samkeppni, vegna þess að reynslan er sú að það er alls ekki magnið sem skiptir máli heldur gæðin. Þegar við erum að þróa stafrænar lausnir sem eru í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi og við erum með internetnotendur sem eru vanir því að það sé allt aðgengilegt samstundis, og virki strax þá snýst þetta um að þú færð í raun einn möguleika til að ná árangri. Þú þarft góða lausn en hún getur allt eins verið þróuð hér eins og einhvers staðar annars staðar í heiminum. Í tengslum við þetta þá höfum við vissulega verið að skoða markaði og lausnir erlendis sem eru svipaðar og okkar lausnir. Við höfum auðvitað hug á því að skoða slíkt áfram en tökum eitt skref í einu,“ segir Sigríður Margrét.

Sigríður Margrét er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .