Að sögn Jafets Ólafssonar, framkvæmdastjóra Veigs fjárfestingafélags, er útlánageta íslensku bankanna talsvert mikil um þessar mundir en hann sagðist telja að í þeim væru nú 1.500 milljarðar króna sem biðu þess að komast í vinnu.

Jafet segist byggja þessa skoðun sína á samtölum við bankamenn. „Þeir hafa sagt mér að þeir hafi mjög góða útlánagetu og að þeir geti tekið að sér góð lánamál. Vandinn sé að enginn er að taka lán. Það virðist vera tvennt sem skýrir það; framkvæmdasgleðin er horfin og vextir eru mjög háir. Svo vita menn sem er að skilyrði bankanna eru mjög þung, menn ætla að vanda sig rosalega í ákvarðanatökunni. Bankarnir eru hins vegar mjög vel starfhæfir út frá þessu.“

Jafet sagði að augljóst væri að bankarnir vildu halda lausafjárstöðu sinni sterkri. Um leið væru þeir að undirbúa sig undir frekari vaxtalækkanir. „Það er engin spurning að það kemur vaxtalækkun næst enda er það bráðnauðsynlegt. Það þjónar engum tilgangi að halda uppi svona háum vöxtum. Fjármagnið þarf að komast á hreyfingu. Það er til lítils að geyma það allt inni í bönkunum.“