Samkvæmt könnun IMD viðskiptaháskólans eru jafnrétti mest á Íslandi og stendur öðrum þjóðum reyndar nokkuð framar hvað það varðar. Mælikvarðinn byggir á samræmdri spurningakönnun meðal stjórnenda fyrirtækja og stofnana í um 55 löndum úr öllum heimsálfum.

Mælikvarðinn um jafnrétti er í víðtækum skilningi þar sem niðurstöður eru byggðar á svörum við spurningunni um það hvort misrétti á grundvelli kyns, kynþáttar, aldurs o.fl. sé þrándur í götu efnahagsþróunar. Niðurstaðan er sýnd í vísitölu á skalanum 0-10 þar sem jafnrétti eykst eftir því sem vísitalan er hærri. Ísland lendir í fyrsta sæti með vísitöluna 8,72 , sem er talsvert hagstæðari útkoma en hjá þeim löndum  sem fylgja næst á eftir, sem eru Austurríki með 8,14, Portúgal með 8,13, Danmörk með 7,93, Singapúr með 7,92 og Eistland með 7,82. Suður-Afríka var neðst á listanum með einkunina 3,49, Venesúela var með 4,21, Kína með 4,33, Pólland með 4,54 og Kórea með 4,78.

Eftirtektarvert er að Bandaríkin eru í 26. sæti með 6,85 og Bretland í 30. sæti með 6,67, fyrir neðan þjóðir á borð við Kólumbíu og Chile.