Forstjórar þeirra þriggja fasteignafélaga sem skráð eru á markað ræddu stöðu og horfur á markaði með atvinnuhúsnæði í fylgiriti Viðskiptablaðsins um fasteignamarkaðinn sem kom út fyrir helgi. Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar, segir teikn á lofti um að bjartsýni sé að aukast í atvinnulífinu.

„Það er að færast líf í eftirspurnarhliðina á skrifstofuhúsnæði sem er mjög jákvætt og ber með sér að bjartsýni er að aukast í atvinnulífinu. Verslun hefur gengið mjög vel í faraldrinum og oftar en ekki betur en alla jafna. Sú verslun sem sneri helst að ferðamönnum varð eðli máls samkvæmt fyrir höggi en hún mun koma smátt og smátt til baka samhliða ferðamannastraumnum. Það er sömuleiðis fyrirséð að það muni taka hótelgeirann aðeins lengri tíma að jafna sig en vonandi mun gosið flýta viðspyrnu hans. Maður krossar hreinlega fingur og vonar að það gjósi áfram í einhvern tíma," segir Garðar um horfur á markaði með atvinnuhúsnæði.

Hann telur að það muni taka nokkur ár að ná jafnvægi í hótelgeiranum. „Við áætlum að jafnvægi náist þegar ferðamenn verða orðnir einhvers staðar á bilinu 2,6 til 3,3 milljónir, eftir því hver dvalartími þeirra verður. Við teljum að hótel á borð við Mariott Edition muni draga að nýja og öðruvísi kúnna, þannig að það mun vonandi stækka kökuna og auka verðmætasköpunina."

Afar sérstakur dómur

Fosshótel Reykjavík var í héraði gert að greiða helming ógreiddrar leigu til leigusala síns, Íþöku ehf., en það sem eftir stóð var látið niður falla vegna þeirra fordæmalausu aðstæðna sem veirufaraldurinn skapaði. Nokkuð hefur verið rætt um hugsanleg áhrif niðurstöðu dómstóla í Fosshótelsmálinu á leigusamninga þeirra, verði niðurstaða í héraði staðfest í Hæstarétti.

„Okkur þykir dómurinn í máli Fosshótels og Íþöku afar sérstakur. Það var mjög óvænt að samningi milli tveggja lögaðila skyldi vera breytt með þessum hætti. Ég fagna því að Hæstiréttur hafi ákveðið að taka málið beint til sín, þannig að það gangi hraðar fyrir sig í dómskerfinu. Við eigum eftir að sjá hver endanleg niðurstaða verður, en okkar viðskiptavinir voru hins vegar komnir í ákveðinn farveg og ekkert sem kallaði á breytingar á þessum tímapunkti í ljósi þessa máls, en þetta á allt eftir að koma betur ljós," segir Garðar um málið.

Breytt vaxtaumhverfi

Markaðsaðilar vænta þess að stýrivextir fari hækkandi á árinu en lágt vaxtastig undanfarið hefur gert félaginu kleift að lækka fjármagnskostnað sinn.

„Það er fyrirséð að stýrivextir hækki eitthvað samhliða efnahagsbatanum, en okkar tilfinning er sú að vaxtamunur milli Íslands og Evrópu verði ekki eins mikill og hann var fyrir faraldur. Vaxtabreytingar hafa helst áhrif á bankalánin hjá okkur, en þau eru minnihluti lána. Á móti kemur að við höfum verið að selja mikið af skuldabréfum á markaði þar sem hvert útboð hefur skilað okkur lægri kröfu. Við höfum þannig náð að tryggja okkur lægri vexti til lengri tíma," segir Garðar.

Nánar er fjallað um málið í Fasteignamarkaðnum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .