Jakob Sigurðsson
Jakob Sigurðsson

Jakob Sigurðsson hefur verið ráðinn nýr forstjóri Promens. Jakob tekur við af Ragnhildi Geirsdóttir sem verið hefur forstjóri Promens síðan 2006. Ragnhildur hefur óskað eftir því að láta af störfum en hún mun taka sæti í stjórn félagsins.

Áður hjá deCODE genetics

Jakob er vel kunnugur Promens þar sem hann hefur setið í stjórn félagsins síðan í mars 2007. Jakob kemur úr starfi framkvæmdastjóra deCODE genetics og þar áður var hann forstjóri Alfesca. Jakob gengdi um 10 ára skeið ýmsum stjórnunarstörfum hjá bandaríska sérefnafyrirtækinu Rohm and Haas, sem er hluti af Dow Chemical, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Jakob hefur þegar hafið störf og mun starfa samhliða Ragnhildi til 31. ágúst, þegar hún lætur formlega af starfi forstjóra.

Þekkir félagið vel

“Stjórn Promens er mjög ánægð með að hafa fengið Jakob Sigurðsson til þess að taka við starfi forstjóra Promens. Jakob þekkir félagið vel og umhverfi þess. Staða Promens í dag er sterk og mikil tækifæri eru framundan til að stækka og efla félagið og hlökkum við til að takast á við þau viðfangsefni með Jakobi," segir Hermann M. Þórisson, stjórnarformaður Promens

Framleiða plastafurðir

Promens er leiðandi fyrirtæki á heimsvísu í framleiðslu plastafurða og rekur 45 verksmiðjur í 19 löndum með ríflega 4.200 starfsmenn. Fyrirtækið framleiðir meðal annars umbúðir fyrir matvæli, snyrtivörur og lyf, auk íhluta fyrir bifreiðar, landbúnaðarvélar og þungavinnuvélar. Promens þjónar fyrirtækjum í fjölmörgum atvinnugreinum, s.s. matvinnslufyrirtækjum, efnaverksmiðjum, lyfjaframleiðendum og framleiðendum bifreiða og raftækja. Velta Promens á árinu 2010 nam 92 milljörðum króna (584 milljónum evra). Höfuðstöðvar félagsins eru á Íslandi ásamt verksmiðjum á Dalvík og í Hafnarfirði.

Horn og Framtakssjóður eiga Promens

Nýverið greindi Viðskiptablaðið frá því að Horn fjárfestingafélag hf., dótturfyrirtæki Landsbankans hf., eignaðist 99% hlut í Promens sem áður var að stærstum hluta í eigu Atorku hf. Horn seldi strax 40% hlut Promens til Framtakssjóðs Íslands. Kauðverðið var 6,6 milljarðar króna og var að hluta til hlutafjáraukning í Promens. Eftir kaupin átti Horn 59% hlutafjár í Promens og Framtakssjóður átti 40%. Þá er 1% í eigu lykilstarfsmanna.