Samkvæmt ársreikningi Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2016 voru heildar rekstrartekjur samstæðu Vestmannaeyjabæjar 4.661 milljónir króna og rekstrargjöld rekstrargjöld fyrir afskriftir og fjármagnsliði námu 4.218 milljóni króna. Rekstrarafkoma samstæðu var jákvæð um tæpar 417 milljónir.

Hjá aðalsjóði var veltufé frá rekstri 816 milljónir og hjá samstæðu Vestmannaeyjabæjar var veltufé frá rekstri ríflega milljarður.

„Vestmannaeyjabær hefur á seinustu árum verið að greiða niður áratuga gamlar skuldir og er búinn að greiða niður skuldir og skuldbindingar fyrir u.þ.b. 5.353 milljónir síðan 2006 og hafa skuldir lækkað um rúmlega 90% á þessum tíma. Með reglulegum afborgunum mun Vestmannaeyjabær nálgast það að verða skuldlaus við lánastofnanir innan fárra ára. Lífeyrisskuldbinding Vestmannaeyjabæjar hefur hins vegar hækkað mikið undanfarin ár og var gjaldfærslan árið 2016 um 473 milljónir hjá samstæðu Vestmannaeyjabæjar og nam hún 10,1% af heildartekjum Vestmannaeyjabæjar,“ segir í tilkynningu frá Vestmannaeyjabæ.

Þrátt fyrir mikla hækkun lífeyrisskuldbindinga hjá sveitarfélaginu hefur skuldahlutfall Vestmannaeyja lækkað á milli ára hjá samstæðinu en lítlega hækkað á milli ára hjá A-hlutanum. Í árslok 2016 stóð skuldahlutfallið í 123,2% hjá A-hlutanum og skudlaviðmiðið var 14,4%. Hjá samstæðunni var skuldahlutfallið 106,4% og skuldaviðmiðið 11,7%.

Eins og rekstur fjölskyldu

„Rekstur sveitarfélags er eins og rekstur fjölskyldu. Allri innkomu er varið til að bæta lífsgæði íbúa og tryggja þeim farsæld til lengri og skemmri tíma. Það skiptast sannarlega á skin og skúrir og svigrúmið til að mæta ýtrustu kröfum bæjarbúa er breytilegt. Ætíð skiptir þó sköpum að kjörnir fulltrúar hafi kjark til að taka ákvarðanir sem um tíma kunna að vera umdeildar. Að hagræða til að mæta breyttum kröfum en þenja ekki stöðugt út reksturinn jafnvel þótt tíma bundið kunni að vera sigrúm til þess. Að eyða um efni fram án fyrirhyggju felur feigðina í sér. Hlutverk kjörinna fulltrúa er fyrst og fremst að tryggja langtíma velferð þess samfélags sem þeim er treyst til að gæta og það er best gert með því að koma í veg fyrir óhóflega skuldasöfnun og tryggja hámarks þjónustu á sem hagkvæmasta máta.

Niðurstaða ársreiknings Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2016 er til marks um þetta leiðarljós bæjarstjórnar og henni fyrst og fremst hvatning til að gæta þess áfram að missa ekki tökin á skulda og útgjaldahliðinni,“ segir í tilkynningunni sem er undirrituð af Elliða Vignissyni bæjarstjóra.