Flestir hlutabréfamarkaðir hækkuðu í Evrópu í dag eftir að hafa þó lækkað við opnun í morgun. Að sögn Reuters fréttastofunnar má rekja hækkanir dagsins til jákvæðni bandarískra fjárfesta en markaðir vestanhafs hækkuðu strax við opnun og í kjölfarið tóku markaði í Evrópu kipp upp á við.

Pöntunum á varanlegum neysluvörum fjölgaði um 3,4% í febrúar og hafa ekki aukist jafn mikið í einum mánuði í tæpt eitt og hálft ár.

Þá sala á nýbyggingum íbúða í febrúar jafnframt ekki aukist jafn mikið í 10 mánuði.

FTSE 300 vísitalan hækkaði um 0,6% en hafði þó fyrr í morgun lækkað um 1,5%.

„Það var kominn tími á jákvæðar fréttir,“ hefur Retuers eftir Mike Lenhoff, greiningaraðila hjá Brewin Dolphin Securities í Lundúnum en hann bætir þó við að enn sé langt í land og því rétt að menn séu hóflega bjartsýnir á að mikinn uppgang markaða.

Olíuframleiðendur voru áberandi í hækkunum dagsins. Þannig hækkuðu félög á borð við Total, ENI, Shell, Repsol og Statoil um 2% - 3%.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan að vísu um 0,3%, í Amsterdam hækkaði AEX vísitalan um 1,8% og í Frankfurt hækkaði DAX vísitalan einnig um 0,9%.

Í París hækkaði CAC 40 vísitalan um 0,7% en í Sviss hækkaði SMI vísitalan um 0,9%.

Í Kaupmannahöfn hækkaði OMXC vísitalan um 0,2%, í Stokkhólmi hækkaði OMXS vísitalan um 1,6% og í Osló hækkaði OBX vísitalan um 2,3%.