Ólíklegt er að íslenskir túristar geti nýtt sér flug Japan Airlines til Keflavíkur.

Eins og VB.is greindi frá í gær tilkynnti Isavia að sex ferðir yrðu hjá Japan Airlines til Keflavíkur næstu tvær vikur en þær verða víst einungis fjórar. Þetta kemur fram á vef Túristi.is .

Shiho Kuniki, talsmaður félagsins, segir í samtali við Túrista að flugið til Íslands sé á vegum japanskra ferðaskrifstofa og ekki séu uppi áætlanir um hefðbundið áætlunarflug frá Japan til Íslands á vegum Japan Airlines.

Fleiri Japanir en áður

Fjöldi japanskra ferðamanna hefur nær tvöfaldast milli ára. Samkvæmt tölum frá Ferðamálastofu voru þeir 12.363 árið 2013 en 6.902 árið 2011. Auk þess hafa 14% fleiri japanskir farþegar farið um Keflavíkurflugvöll á fyrstu sjö mánuðum ársins í ár í samanburði við síðasta ár.