Jarðskjálftinn í Japan og flóðbylgjan sem kom í kjölfarið hefur haft mikil áhrif á framleiðslu japanskra bíla, í Japan og um allan heim. Samkvæmt ráðgjafafyrirtækinu IHS Automotive hefur framleiðslan í Japan minnkað um 65%.  Reuters greinir frá þessu á vef sínum.

Áður en hörmungarnar riðu yfir Japan, þann 11. mars, voru um 37.200 bílar framleiddir á dag en framleiðslan er nú um 13 þúsund bílar á dag

Framleiðsla utan Japan hefur einnig minnkað þar sem margir hlutir í bíla eru framleiddir þar og sendir til verksmiðja um allan heim. Telur ráðgjafafyrirtækið að framleiddir hafi verið 10 þúsund færri bílar eftir 11. mars en ella.

IHs telur að framleiðslan muni minnka enn frekar þegar lagerar tæmast og íhlutir hætti að berast frá Japan. Það taki sjö vikur að vinna upp hverja viku þar sem framleiðslugetan hefur minnkað.

Það getur tekið langan tíma að ná fullu afköstum að nýju því með viðgerðum á verksmiðjum sé aðeins hluti vandans leystur. Aðrir þættir spili einnig inn í, s.s. óstöðugt framboð af raforku, vatnsskotur, frárennsli, hafnaraðstaða, lestateinar og vegir.

Toyota er langstærsti bílaframleiðandinn í Japan með um 44% framleiðslunnar. Nissan kemur þar á eftir með um 12% hlutdeild í bílaframleiðslunni.