Bandaríska flugfélagið JetBlue Airways mun sumarið 2016 fá afhenta fyrstu Airbus vélina sem framleidd er í Bandaríkjunum.

Evrópski flugvélaframleiðandinn Airbus vinnur nú að því að reisa framleiðsluverksmiðju í Mobile í Alabama ríki. Verksmiðjan mun framleiða A320 línuna, sem er mest selda vél Airbus frá upphafi en á sömu framleiðslulínu eru A318, A319 og A321 vélar.

Hafist var handa við að reisa verksmiðjuna í fyrrasumar en ætlað er að hefja þar framleiðslu árið 2015 og afhenta fyrstu vélina árið 2016. Gert er ráð fyrir að verksmiðjan geti framleitt á bilinu 40-50 vélar á ári.

Til gamans má geta þess að í dag eru framleiddar um 35 A320 vélar á mánuði, þannig að á þeim mælikvarða verður verksmiðjan í Bandaríkjunum ekki mjög stór.