Nú stendur yfir þjóðaratkvæðagreiðsla í Venesúela en forseti landsins, Hugo Chavez hefur lagt til breytingar á stjórnarskránni. Breytingin felur það í sér að lög um kjörtímabil forseta verði afnumin þannig að forseti landsins geti setið lengur við völd. Hugo Chavez hefur þegar lýst því yfir að hann vilji vera við völd til æviloka en hann komst til valda árið 1999.

Chavez hefur lýst yfir áhyggjum af því að bandarísk stjórnvöld muni reyna að hafa áhrif á kosningarnar. Að sögn WSJ hefur Chaves í framhaldi af því hótað að Venesúela hætti að selja olíu til Bandaríkjanna ef til þess kæmi.

Frumvarp Chavez er umdeilt í Venesúela og hafa andstæðingar hans látið meira í sér heyra en áður. Hann hefur lýst því yfir að hann vilji koma á sósíalísku hagkerfi að fullu. Nærri 80% íbúa í Venesúela búa við fátækt og sækir Chavez mikið af fylgi sínu þangað. Mesta andstaða sem Chaves mætir þessa dagana er frá háskólastúdentum annars vegar og viðskiptamönnum hins vegar.

Rafael Ramirez, olíumálaráðherra Venesúela neitaði því í dag að Venesúela muni reyna að hafa áhrif á olíuverð í heiminum en næstu daga fer fram fundur OPEC ríkja í Abu Dhabi. Ramirez sagði þó að ekki þyrfti að auka olíuframleiðslu í heiminum þar sem nóg væri til að birgðum. Það þykir vísbending til þess að stjórnarmenn í Venesúela vilji hækka olíuverð.