Jóhanna Sigurðardóttir, fráfarandi forsætisráðherra, mun ganga á fund Hr. Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, kl. 15 í dag.

Gera má fastlega ráð fyrir því að Jóhanna biðjist lausnar eins og venja er daginn eftir kjördag. Samkvæmt venju er sitjandi ríkisstjórn beðin um að sitja þangað til ný ríkisstjórn hefur verið mynduð.

Það er síðan undir forsetanum komið hver fær umboð til að mynda nýja ríkisstjórn. Þær venjur eru ekki fastmótaðar, sérstaklega þegar sitjandi ríkisstjórn fellur eins og gerðist í gær en eins og fjallað var um á vef Viðskiptablaðsins í gær hefur ríkisstjórn ekki fallið hér á landi í 26 ár, eða frá árinu 1987. Hins vegar má taka dæmi frá árinu 1991 þegar Davíð Oddsson, þá formaður Sjálfstæðisflokksins, fékk umboð til að mynda ríkisstjórn þó sitjandi ríkisstjórn hafi haldið velli í þingmönnum talið. Það er hlutverk forsetans að vega og meta hvaða stjórnmálaleiðtoga hann felur að mynda nýja ríkisstjórn.