Í minnisblaði íslenskra stjórnvalda til framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er talið varhugavert fyrir gengisþróun krónunnar að hörfa frá aðhaldssamri peningastefnu, sem felur í sér gjaldeyrishöft og háa stýrivexti.

Þar segir að gjaldeyrishöft hafi létt þrýstingi á krónuna en þrátt fyrir það hafi háir stýrivextir verið nauðsynlegir til að ná fram gengisstöðugleika. Sé stöðugleikanum ógnað séu stjórnvöld tilbúin að herða enn frekar á peningastefnunni.

Minnisblaðið fylgir með viljayfirlýsingu sem undirrituð er að Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra og Má Guðmundssyni, seðlabankastjóra 20. október síðastliðinn. Þar er meðal annars sagt frá útgáfu innstæðubréfa og aðgerðir Seðlabankans hafi miðað að því að herða vaxtastigið og draga úr lausu fé í bönkunum.

Sú hlið sem Jóhanna Sigurðardóttir snýr að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er allt önnur en þegar hún talar við almenning á Íslandi. Þá fer lítið fyrir áherslum hennar á vaxtaaðhald Seðlabankans og mikilvægi gjaldeyrishafta, eins og í minnisblaðinu sem hún skrifaði undir og sendi AGS.

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins 27. september síðastliðinn, tæpum mánuði áður en Jóhanna skrifaði Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og eftir að Seðlabankinn hafði haldið stýrivöxtum óbreyttum, sagði hún: „Og þó að Seðlabankinn vilji halda stýrivöxtum háum, eru stjórnvöld áfram um að þeir verði lækkaðir.“

Þetta er ekki í samræmi við það sem hún sagði AGS.

Í fréttum Ríkisútvarpsins 30. október síðastliðinn, tíu dögum eftir að Jóhanna sendi bréfið til AGS, sagðist hún vonast til þess að hægt væri að fara hraðar í afnám gjaldeyrishaftanna eftir að AGS samþykkti efnahagsáætlun stjórnvalda. Og það gæti líka haft „jákvæð áhrif á stýrivextina“, sem verður þá að túlka sem vonir hennar um stýrivaxtalækkun.