Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, segist ekki hafa sóst eftir „þessum vandasömu verkefnum,“ eins og hún orðar það í tölvupósti til samstarfsmanna sinna í Samfylkingunni í dag.

Eins og áður hefur komið fram hyggst Jóhanna láta af embætti forsætisráðherra í vor og hætta í kjölfarið þátttöku í stjórnmálum. Þá segir Jóhanna í fyrrnefndum tölvupósti að hún hafði áform um að hætta í stjórnmálum að loknu því kjörtímabili sem hófst vorið 2007.

Viðskiptablaðið hefur tölvupóst Jóhönnu undir höndum og er hann hér birtur í heild sinni:

„Aðeins sjö mánuðir lifa nú af viðburðarríku kjörtímabili fyrstu meirihlutastjórnar jafnaðarmanna og félagshyggjufólks á Íslandi – ríkisstjórnarsamstarfi sem hófst með minnihlutastjórn Samfylkingar og VG 1. febrúar 2009 og staðið hefur óslitið síðan undir forystu okkar jafnaðarmanna.

Þrátt fyrir erfiðar aðstæður minnihlutastjórnarinnar unnum við glæsilegan sigur í kosningunum 25. apríl 2009 þar sem Samfylkingin varð stærsti flokkurinn á Alþingi. Meirihluti þjóðarinnar treysti okkur til forystu á einu erfiðasta tímabili í sögu landsins og þar með til að hreinsa til eftir óstjórn hægriaflanna og að endurreisa íslenskt samfélag með nýjum vinnubrögðum og umbótum á grundvelli jöfnuðar og réttlætis.

Ég var valin til forystu á þessum miklu óvissutímum, bæði sem formaður Samfylkingarinnar og forsætisráðherra. Mér var falin gífurleg ábyrgð og sýnt ómælt traust. Ekki sóttist ég þó sjálf eftir þessum vandasömu verkefnum og í sannleika sagt hafði ég áform um að hætta stjórnmálaþátttöku að loknu því kjörtímabili sem hófst vorið 2007. En í ljósi eindreginna tilmæla flokksmanna og þáverandi forystu flokksins, og andspænis þeim krefjandi verkefnum sem við blöstu í íslensku samfélagi, var ómögulegt annað en að taka slaginn. Og því sé ég svo sannarlega ekki eftir.

Þessi tæplega fjögur ár hafa verið átakamikil og þung í skauti fyrir mig eins og alla þjóðina en einnig gefandi, ekki síst að undanförnu þegar árangur erfiðisins hefur sífellt komið skýrar í ljós. Fjölskyldur, félagasamtök og starfsfólk fyrirtækja, sveitarfélaga og stofnana hafa unnið sannkallað afrek með sameiginlegum viðbrögðum sínum við hruninu. Af þeim árangri getum við Íslendingar öll verið afar stolt.

Það hefur einnig veitt mér mikinn kraft og gleði að vinna að framgangi þeirra fjölmörgu umbótamála sem við jafnaðarmenn höfum lengi barist fyrir en fyrst nú náð í höfn. Sú mikla samstaða sem ríkt hefur í Samfylkingunni í formannstíð minni, bæði innan flokks, þingflokks og ríkisstjórnar er ein megin ástæða þess að allt þetta var gerlegt. Samfylkingin reyndist sá flokkur sem aldrei bognaði þótt á brattann væri að sækja og stóð af sér alla brimskafla og ólgusjói og óx með hverri raun. Fyrir þetta verð ég ævinlega þakklát.

Og nú erum við að uppskera og getum baráttuglöð og vígreif gengið til kosninga næsta vor. Tækifærin blasa alls staðar við og nú er það okkar að nýta þau. Samfylkingin stendur vel og hefur alla burði til að vera áfram burðarflokkur í íslenskum stjórnmálum. Vissulega eru mörg stór og erfið viðfangsefni framundan en saman munum við kappkosta að leiða þau til lykta á lokaþingi kjörtímabilsins.

En allt hefur sinn tíma, líka minn tími í stjórnmálum sem orðinn er langur og viðburðaríkur. Nú tel ég tímabært að aðrir taki við keflinu sem mér var falið í kjölfar hrunsins. Að loknu þessu kjörtímabili hef ég því ákveðið að láta af þátttöku í stjórnmálum.

Þetta vildi ég upplýsa um, nú þegar líður að skipan framboðslista og undirbúnings landsfundar Samfylkingarinnar um leið og ég þakka af heilum hug það ómetanlega traust og þann mikla stuðning, sem ég hef notið á liðnum árum.

Kæri félagi.

Pólitík er langhlaup og þar veltur á miklu að hafa úthald og þrautseigju alla leið í mark ... og helst að spretta enn hraðar úr spori á lokametrunum. Lokaspretturinn er hafinn, bæði minn pólitíski endasprettur og endasprettur fyrstu meirihlutaríkisstjórnarinnar undir forystu okkar jafnaðarmanna.

Á mánuðunum fram að landsfundi og síðan fram að kosningum mun ég að sjálfsögðu gera mitt ýtrasta, í þeim störfum sem þið hafið falið mér, til að ná fram baráttumálum okkar jafnaðarmanna og til þess að tryggja að Samfylkingin verði áfram forystuafl í íslenskum stjórnmálum.“