Rannsóknarsetur verslunarinnar áætlar að velta jólaverslunar í nóvember og desember aukist um 7 prósent á nafnvirði og 6,5 prósent á raunvirði frá fyrra ári. Rannsóknarsetrið spáir því að velta jólaverslunar nemi um 45 þúsund krónum á hvert mannsbarn á Íslandi. Heildarvelta í jólaverslun verði um 15 milljarðar króna.

„Við erum að spá þessu aðallega út frá þróun í smásöluverslun það sem af er ári. Svo er náttúrulega ýmislegt annað í kortunum. Kaupmáttur hefur verið að aukast. Það er nýbúið að gera kjarasamninga, væntingar hafa verið að aukast að því er maður hefur séð á mælingum,“ segir Emil B. Karlsson, forstöðumaður Rannsóknarseturs verslunarinnar.

Innlend netverslun 1% af heildinni

Raunvirði jólaveltunnar minnkaði um næstum því 20 prósent árið 2008 og minnkaði einnig árin 2009 og 2010. Síðan þá hefur raunvirði veltunnar aukist á hverju ári, mest á síðasta ári þegar hún jókst um næstum því 6 prósent. Rannsóknarsetur verslunarinnar metur hversu stóran hluta af smásöluverslun í nóvember og desember má rekja til jólanna. Í skýrslu setursins í fyrra var áætlað að um 17% allrar smásöluverslunar í þessum tveimur mánuðum hafi verið vegna jólahátíðarinnar. Hlutdeild jólaverslunar í heildarverslun ársins hefur farið minnkandi undanfarin ár.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .