Jón Ásgeir Jóhannesson mun láta af starfi forstjóra Baugur Group hf og taka við sem starfandi stjórnarformaður, en við starfi forstjóra tekur Gunnar S. Sigurðsson, sem hingað til hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra Retail fjárfestingasviðs, segir í tilkynningu Baugs.

Á aðalfundi Baugs Group hf. sem haldinn var í dag 8. júní voru kynntar umtalsverðar skipulagsbreytingar sem þegar hafa tekið gildi. Breytingarnar eru gerðar með það fyrir augum að gera stjórnun félagsins enn skilvirkari en áður í fjölþættri sókn þess á alþjóðavettvangi, segir í tilkynningunni.

Stefán H. Hilmarsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs verður staðgengill forstjóra. Skarphéðinn Berg Steinarsson sem gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra Property & Investments sviðs Baugs tekur við forstjórastarfi hjá Stoðir Group sem er nýstofnað félag sem tekur yfir rekstur Stoða hf. og fleiri fasteignafélaga.

?Fyrirtækið hefur vaxið mjög hratt á undanförnum árum og er Baugur Group nú það fjárfestingarfélag á sviði smásölu og fasteigna sem hraðast vex í heiminum og við stefnum að enn frekari vexti. Hin mikla stærð og umfang kallar á breytt skipulag til að vöxtur og velgengni félagsins geti haldið áfram. Við höfum sett okkur þau markmið að verða stærsta fjárfestingarfyrirtæki í heiminum í fjárfestingum tengdum verslunarrekstri innan fimm ára. Að ná slíku markmiði krefst þess að Baugur sé í framlínu á þróun rekstrarumhverfis verslunar auk þess að vera leiðandi þátttakandi í þeirri gríðarlegu samþættingu verslunar sem mun eiga sér stað á komandi árum,? segir Jón Ásgeir.

?Í starfi mínu sem starfandi stjórnarformaður mun mér gefast tækifæri til að þróa þessa sýn, horfa lengra fram á veginn og byggja upp umhverfi sem gerir Baugi kleift að ná settum markmiðum á þessu sviði. Þá má um leið segja að eðlilegra sé að ég sitji í hlutverki formanns við stjórnarborðið, þar sem ég og fjölskylda mín eigum um 80% hlut í félaginu. Hreinn Loftsson hefur verið stjórnarformaður á miklum umbrotatímum í sögu fyrirtækisins og jafnframt verið lögfræðilegur ráðunautur þess. Hann mun áfram sitja í stjórninni og gegna ráðgjafastörfum sínum fyrir félagið? segir Jón Ásgeir.

Fyrirhugað er að innan Stoðir Group verði stærstu eignir Baugs á sviði fasteignareksturs, s.s. Fasteignafélagið Stoðir og eignarhluti félagsins í Keops og Nordicom í Danmörku. Samfara þessu hefur verið ákveðið að auka eigið fé Stoðir Group um 40 milljarða króna frá því sem nú er og stefnt er að skráningu félagsins á OMX Nordic Stock Exchange á næstu tólf mánuðum. Kristín Jóhannesdóttir verður stjórnarformaður Stoða Group. Jón Ásgeir Jóhannesson mun í framhaldi af þessum breytingum taka við stjórnarformennsku í FL Group af Skarphéðni Berg Steinarssyni sem mun sitja áfram í stjórn FL Group og Glitnis, segir í tilkynningunni.

Þá voru þær breytingar gerðar á framkvæmdastjórn félagsins að fjórir nýjir framkvæmdastjórar taka sæti í framkvæmdastjórn Baugs Group. Það eru þau Jeff Blue, sem verður framkvæmdastjóri fyrir Retail (fjárfestingar á sviði smásölu), Eiríkur Jóhannsson verður framkvæmdastjóri Properties (fjárfestinga á fasteignasviði), Þórdís Sigurðardóttir verður framkvæmdastjóri Media & New Ventures (fjárfestinga á sviði fjölmiðlunar og fjarskipta) og Sara Lind verður framkvæmdastjóri Corporate Communications (kynningarsviðs).

Þá hefur verið ákveðið að færa allan verslunarrekstur Baugs Group í Færeyjum og Íslandi undir Haga hf. og verður 45% eignarhluti Baugs Group í Húsasmiðjunni færður til Haga hf. Baugur Group verður sem áður 96% eigandi alls hlutafjár í Högum.