Jón Ásgeir Jóhannesson segist í viðtali við Viðskiptablaðið ekki hafa eytt yfir hundrað milljónum í lögfræðinga eins og haldið hefur verið fram. Þvert á móti hafi hann reynt að halda kostnaði niðri. Hann hafi þó numið 22 milljónum króna nú þegar og þá hafi hann verið dæmdur til þess að greiða 27 milljónir af um 115 milljóna króna kostnaði slitastjórnar Glitnis.

Aðspurður hvort hann eigi einhverjar eignir, umfram þann lista sem nú hefur verið gerður opinber, segir hann svo ekki vera. Hann hafi lagt allt undir í sínum fyrirtækjum, ólíkt því sem margir virðast halda. "Ég reyndi að halda kostnaði niðri. Ég fór ódýrari leið en Glitnir sem var með ellefu lögmenn frá Slaughter & May. Ég var bara ofurliði borinn í þessu, þegar kom að lögfræðilegri vinnu. Annars verður slitastjórnin að svara fyrir ákveðin atriði í þessu máli. Stórt rannsóknarfyrirtæki, Kroll, hefur verið að störfum í eitt ár og ekki fundið einhverjar eignir sem slitastjórnir telur að séu til, getur þá ekki bara verið að þær séu ekki til? Þetta fyrirtæki virðist ekki geta komist að því hvar ég á heima þannig að það er nú kannski ekki skrítið að þetta gangi illa hjá þeim. Staðreyndin er sú að ég lagði allt mitt undir í þessum fyrirtækjum, átti þó hús og bíla og smá varasjóð. Ég er 42 ára og tel mig ágætlega settan miðað við marga. Menn hlæja víst að því núna að ég eigi eignir upp á 240 milljónir. Ég á alls ekkert meira en sem þessu nemur. Kannski fer þetta allt í lögfræðilegan kostnað en það verður að koma í ljós."

- Nánar í Viðskiptablaðinu.