Jón Diðrik Jónsson hefur ákveðið að láta af störfum sem forstjóri Ölgerðarinnar Egill Skallagrímsson ehf. frá og með næstu áramótum. Við starfi Jóns Diðriks tekur Andri Þór Guðmundsson en hann mun gegna starfi aðstoðarforstjóra frá 1. október. Andri Þór gegnir nú starfi framkvæmdastjóra fjármála- og þróunarsviðs Ölgerðarinnar.

Jón Diðrik Jónsson var ráðinn til Ölgerðarinnar fyrir þremur árum m.a. með það að markmiði að auka hlutdeild fyrirtækisins á gosdrykkjamarkaði og ná fram mikilvægum áherslubreytingum í rekstri. Lögð var mikil áhersla á sölu- og markaðsstarf en Jón Diðrik hefur víðtæka reynslu af erlendum drykkjarvörumörkuðum.

Undanfarin ár hefur verið unnið markvisst að því að efla Ölgerðina sem sölu- og markaðsdrifið drykkjarvörufyrirtæki. Velta þess hefur tvöfaldast og markaðshlutdeild í gosdrykkjum aukist verulega. Sala á bjór, áfengi og léttvínum hefur aukist að sama skapi og er nú stór hluti af veltu fyrirtækisins. Fyrstu 8 mánuði þessa árs var markaðshlutdeild 34% í sterku áfengi og um 40% í gosdrykkjum. Aukin áhersla hefur einnig verið lögð á útrás dótturfélaga. Ölgerðin hefur unnið til fjölmargra verðlauna og viðurkenninga undanfarin ár, s.s. fengið bestu mælingu í Íslensku ánægjuvoginni síðastliðin þrjú ár og Markaðsverðlaun ÍMARK 2002.

Fram til áramóta munu tækni-, vörustjórnunar-, starfsmanna- og veitinga-svið heyra undir daglega stjórn og ábyrgðarsvið Andra Þórs. Jón Diðrik mun í framtíðinni koma að stjórnun dótturfélaga Ölgerðarinnar og verkefnum sem tengjast útrás þeirra.

Andri Þór Guðmundsson er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og með MBA-gráðu frá Rotterdam School of Management í Hollandi. Andri Þór hefur starfað hjá Ölgerðinni frá árinu 2002. Áður starfaði hann m.a. sem fjármálastjóri og aðstoðarforstjóri Lýsis hf. og markaðsstjóri hjá Almenna bókafélaginu hf.

Ofangreindar breytingar voru kynntar starfsmönnum Ölgerðarinnar á fundi í hádeginu.